22 Mars 2004 12:00

Nýlega kom út skýrsla þar sem kynntar eru niðurstöður úr rannsókn á aksturshegðun meðal nær 2.000 nemenda í framhaldsskólum og Háskóla Íslands. Rannsóknin, sem var framkvæmd haustið 2003, er unnin af Hauki Frey Gylfasyni, Rannveigu Þórisdóttur og Marius Peersen í samstarfi við Rannum og embætti ríkislögreglustjóra.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að rúmlega 17% þátttakenda höfðu verið valdir að umferðarslysi. Hlutfall karla og kvenna var svipað, rúmlega 19% karla höfðu verið valdir að umferðarslysi á móti 16% kvenna. Þegar fjöldi umferðarslysa er skoðaður hafa karlar hvorki lent í fleiri bílslysum sem ökumenn en konur né heldur sem ökumenn ekið utan í eitthvað (eins og bíl á bílastæði). Ekki var heldur munur á því hversu oft karlar og konur hafa lent sem farþegar í bíl í bílslysi. 

Karlar verja meiri tíma í umferðinni en konur. Munurinn er rúm klukkustund á viku eða rúmlega 30 kílómetrar. Niðurstöðurnar eru ekki jafn skýrar þegar þær eru skoðaðar eftir aldri. Yngstu ökumennirnir, 17 ára, telja sig verja meiri tíma í umferðinni en hinir eldri, á meðan elstu þátttakendurnir, 20 til 30 ára, telja sig aka meira í kílómetrum talið en hinir yngri. Hugsanleg skýring gæti falist í meiri reynslu eldri þátttakenda í að meta saman ekna kílómetra og tímann sem það tekur. 

Þegar samband kyns og þess að valda slysi er skoðað er ekki hægt að fullyrða að karlar séu líklegri til að valda sínu fyrsta umferðarslysi en konur. Hættan fyrir bæði kynin rýkur upp við 17 ára aldur. Hún en fellur hraðar hjá konum en körlum en endist hins vegar lengur hjá þeim þar sem líkur karla á að valda sínu fyrsta umferðarslysi hverfa við 22 ára aldur. 

Hafa ber í huga við túlkun niðurstaðna að úrtakið er ekki valið af tilviljun og niðurstöður því vísbendingar sem gefa ekki færi á alhæfingu um unga ökumenn.

Skýrslan í heild sinni >>