1 Júní 2018 15:41

Dagana 29.-31. maí sl. var haldin árleg alþjóðleg ráðstefna fyrir kennslanefndir undir heitinu -29th INTERPOL Disaster Victim Identification Conference-, í höfuðstöðvum Interpol í Lyon í Frakklandi.

Ráðstefnuna sóttu að þessu sinni fyrir hönd kennslanefndar ríkislögreglustjóra Gylfi Hammer Gylfason, formaður, Guðlaugur J. Jóhannsson, tannlæknir, Guðmundur Þ. Tómasson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Jónbjörn Bogason, lögreglufulltrúi hjá ríkislögreglustjóra og  Sigríður Rósa Víðisdóttir, tannlæknir.

Ráðstefnur þessar sækja lögreglumenn, tæknimenn lögreglu, réttartannlæknar, réttarmeinafræðingar, mannfræðingar, DNA sérfræðingar og gagnagrunnssérfræðingar (Plassdata).

Interpol gefur út leiðbeiningar og eyðublöð sem kennslanefndir víðs vegar um heiminn nýta sér. Þannig stendur Interpol að samræmingu vinnubragða kennslanefnda á alþjóðavísu.

Á ráðstefnunni voru kynntar nýjungar við greiningu og rannsóknir þegar bera skal kennsl á látna einstaklinga. Kynnt voru mál um nýlega atburði s.s. hryðjuverkaárásir, stórbruna og sjóslys þar sem kennslanefndir komu að rannsókn þeirra.

Greint var frá utanumhaldi lífssýnaupplýsinga fólks sem er saknað og  kynntar ýmsar aðferðir við fingrafaratöku látinna einstaklinga. Á ráðstefnunni var boðið upp á sérkynningar fyrir faghópa s.s. lögreglumenn, tæknimenn, réttarmeinafræðinga, mannfræðinga, DNA sérfræðinga og tannlækna. Nú var í fyrsta sinn fulltrúum réttarvörslukerfisins boðið og verða þeir framvegis hluti af þátttakendum þessarar árlegu ráðstefnu.

Kennslanefnd  hefur starfað  hér á landi frá árinu 1989. Hlutverk hennar er að bera kennsl á óþekkt lík eða líkamsleifar. Nefndin starfar eftir reglugerð 350/2009, leiðbeiningum frá Interpol og starfslýsingu frá árinu 2012 sem ríkislögreglustjóri gaf út. Í kennslanefnd eru rannsóknarlögreglumenn, tæknimenn lögreglu s.s. sérfræðingur á líftæknisviði (DNA), réttarlæknir, réttartannlæknar, meinafræðingur og læknir. Innanríkisráðherra skipar í nefndina en í henni eru fjórir aðalmenn og þrettán varamenn.

Á árinu 2017 var haldið áfram að efla starf nefndarinnar samkvæmt ákvörðun ríkislögreglustjóra frá 2014. Fjölgað var í nefndinni, keypt var handröntgentæki sem auðveldar störf réttartannlækna bæði á vettvangi stórslyss og við líkskoðun og krufningar í rannsóknarstofu Landspítalans í meinafræði. Þá var keypt myndavél ætluð réttartannlæknum til myndatöku í munnholi. Auk þess voru fest kaup á níu færanlegum og samfellanlegum líkskoðunarborðum, sem nýtast munu nefndinni í slysum þar sem margir farast. Einnig var keyptur ýmiss búnaður til notkunar á vettvangi.

Á árinu 2017 komu níu mál einstaklinga til úrlausnar hjá kennslanefnd. Auðkenning  í málunum var staðfest með ýmist rannsókn á fingraförum, tannfræðilegri rannsókn eða með DNA-rannsókn.

Frá vinstri: Sigríður Rósa Víðisdóttir, Guðlaugur J. Jóhannsson, Gylfi Hammer Gylfason, Jónbjörn Bogason og Guðmundur Þ. Tómasson.