7 Nóvember 2014 12:00

Kjósverjar voru heimsóttir í gær þegar fundaherferð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hélt áfram. Dagskráin var með hefðbundnu sniði en á fundinum, sem var haldinn í Ásgarði venju samkvæmt, var farið yfir stöðu mála og þróun brota í hreppnum. Það var fljótgert enda lítið um brot í Kjósarhreppi, sem er fámennasta sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu, en íbúar í hreppnum eru um 200.

Á fundinum voru einnig kynntar niðurstöður úr könnun, Þolendakönnun – viðhorf til lögreglu, sem embættið lét framkvæma fyrr á árinu, en lesa má um könnunina, sem og þróun brota í Kjósarhreppi, með því að smella hér. Ýmislegt fleira var rætt í Ásgarði og má þar nefna sérstaklega heimilisofbeldismál, en embættið vill gera betur í þeim efnum. Heimilisofbeldismál hafa raunar verið rædd á öllum hverfa- og svæðafundum í haust og vetur og skynjar lögreglan mikinn áhuga borgaranna á að taka þau mál fastari tökum. Að síðustu verður að geta þess að veitingar á fundinum í Ásgarði voru ekki skornar við nögl, enda eru Kjósverjar höfðingjar heim að sækja.