26 Janúar 2016 17:03

Klukkan 12:42 barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um köfunarslys í Silfru á Þingvöllum. Fyrir liggur að þar hafi erlend kona á þrítugsaldri lent í vandræðum við köfun.  Henni var bjargað á land þar sem hlúð var að henni.  Konan var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvöll þar sem sjúkrabifreið beið og flutti hana á Landspítalann við Hringbraut.  Ekki er vitað um ástand konunnar en það er talið alvarlegt.  Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi rannsakar atvikið.  Frekari upplýsingar er ekki hægt að veita að svo stöddu.