16 Október 2013 12:00

Embætti ríkislögreglustjóra og Háskóli Íslands stóðu fyrir könnun á vinnumenningu meðal starfandi lögreglumanna sl. vor. Könnunin leit m.a. að líðan og samskiptum í starfi, samspili vinnu og einkalífs og viðhorfi til stöðu karla og kvenna innan lögreglunnar. Nú liggja niðurstöður könnunarinnar fyrir en skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Tilgangur könnunarinnar var m.a. að skoða af hverju lögreglukonur eru svo fámennar meðal starfandi lögreglumanna þrátt fyrir að hlutfall þeirra af brautskráðum nemendum Lögregluskóla ríkisins hafi verið um 17-33% síðan 1999. Einnig að leita svara við ástæðum brotthvarfs lögreglukvenna.

Í ljósi niðurstaðna könnunarinnar mun embætti ríkislögreglustjóra skipa starfshóp sem hefur m.a. það hlutverk að vinna enn frekar að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum lögreglunnar. Óskað hefur verið eftir tilnefningum fulltrúa frá Landssambandi lögreglumanna, Lögreglustjórafélagi Íslands, Lögregluskóla ríkisins og lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Þá er til athugunar að koma á fót fagráði sem yrði m.a. skipað utanaðkomandi aðilum.

Jafnréttisnefnd lögreglunnar mun í framhaldinu endurskoða jafnréttis- og framkvæmdaáætlun lögreglunnar og skila tillögum að aðgerðum til ríkislögreglustjóra.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur nú þegar kynnt hluta af niðurstöðunum fyrir lögreglustjórum, fulltrúum innanríkisráðuneytisins og Landssambandi lögreglumanna. Opin fundur um niðurstöður könnunarinnar verður svo haldin fyrir starfandi lögreglumenn fimmtudaginn 17. október.