23 Maí 2013 12:00

Embætti ríkislögreglustjóra í samvinnu við kynjafræði við Háskóla Íslands vinnur að könnun meðal starfandi lögreglumanna. Um er að ræða könnun á líðan og samskiptum í starfi, á samspili vinnu og einkalífs og viðhorfi til stöðu karla og kvenna innan lögreglunnar. Finnborg Salome Steinþórsdóttir, meistaranemi í kynjafræði við Háskóla Íslands mun vinna að rannsókninni sem styrkt er af Nýsköpunarsjóði námsmanna og verða niðurstöður kynntar í haust. Leiðbeinandi verkefnisins er Dr. Gyða Margrét Pétursdóttir, aðjúnkt við kynjafræði við Háskóla Íslands.

Ríkislögreglustjóri hefur beitt sér fyrir auknum hlut kvenna innan lögreglunnar. Hlutfall kvenna meðal nýnema við Lögregluskóla ríkisins hefur aukist jafnt og þétt, og eru konur nú um 30% nýnema við skólann. Ríkislögreglustjóri hefur haft til skoðunar þá þróun að þrátt fyrir aukinn fjölda kvenna meðal nýnema í Lögregluskóla ríkisins hefur konum ekki fjölgað svo heitið geti innan lögreglunnar. Konur eru nú rúmlega 12% starfandi lögreglumanna. Í könnuninni verður m.a. leitað skýringa á þessu.

Finnborg Salome Steinþórsdóttir, meistaranemi.