14 Mars 2012 12:00

Í gær þriðjudaginn 13. mars var haldinn kynningarfundur í félagsheimilinu Végarði í Fljótsdalshreppi á viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs stíflurofs Kelduárstífu og Ufsarstíflu sem einu nafni nefnast Hraunaveita. Mættir voru fulltrúar frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á Seyðisfirði, almannavarnarnefnd Múlaþings, Fljótsdalshreppi, Rauða krossi Ísands og björgunarsveitinni Héraði. Þá mættu íbúar af svæðinu. Eftir formlega kynningu ftr. almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra á áætluninni og rýmingaráætlun, ásamt ákvörðun um boðunarprófun fóru fram almennar umræður og fyrirspurnir og sátu ofangreindir aðilar fyrir svörum. Þá var ákveðið að æfa viðbragðsáætlunina í lok júní og verður dagseting tilkynnt þegar nær dregur. Áður hefur verið gefin út og kynnt viðbragðsáætlun vegna rofs stíflna við Hálslón.