14 Maí 2004 12:00
Kynning lokaverkefna nemenda í stjórnunarnámi Lögregluskóla ríkisins í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands
Föstudaginn 21. maí n.k. munu nemendur sem eru að ljúka tveggja anna sérnámi í stjórnun sem fram hefur farið í Lögregluskóla ríkisins í samstarfi við Endurmenntun HÍ kynna lokaverkefni sín í náminu. Kynningin fer fram í húsakynnum Endurmenntunar HÍ að Dunhaga 7 í Námunni á fyrstu hæð. Hún hefst klukkan 10:00 og er áætlað að henni ljúki um klukkan 16:00. Starfsmenn lögreglu er hvattir til að sækja þessa kynningu en öðrum sem áhuga hafa er einnig heimill aðgangur á meðan húsrúm leyfir.
Lokaverkefni nemenda voru alls 7 hópaverkefni sem valin voru í samráði við stjórn námsins. Verkefnunum skiluðu hóparnir í formi skýrslna/greinargerða en kynningin sem fram fer er hluti verkefnavinnunnar og þá kynna nemendur þau atriði sem tekin voru til skoðunar og niðurstöður sínar.
Með kynningu lokaverkefnanna lýkur fyrsti hópur stjórnenda íslensku lögreglunnar sérstöku námi við Lögregluskóla ríkisins og því má segja að þetta séu nokkur tíðindi á vettvangi lögreglumenntunar hér á landi.
Verkefnin sem kynnt verða eru:
Klukkan 10:00 10:30
Hverfastöðvar lögreglunnar í Reykjavík.
Greint er frá upphafi hverfastöðvanna, hvað réð vali þeirra og fjölda, breytingum á verkefnum og áherslum í starfseminni o.fl. Þörf greind og settar fram forsendur fyrir stofnun nýrra hverfastöðva eða e.a. lokun þeirra eða sameiningu.
Klukkan 10:50 11:20
Sameining lögregluliða á höfuðborgarsvæðinu.
Hér er fjallað um hugmyndir varðandi sameiningu lögregluliða á höfuðborgarsvæðinu en á undanförnum misserum hefur verið talsverð umræða í þjóðfélaginu um stækkun og/eða sameiningu lögregluembætta og nýverið skipaði dómsmálaráðherra stýrihóp til að vinna að tillögum þar að lútandi.
Klukkan 11:40 12:00
Handbók fyrir lögreglulið.
Með hugmyndum um gerð handbókar er safnað saman á einn stað mörgum þáttum í starfi lögreglunnar. Má þar nefna skipulag, áætlanir, markmið, leiðarljós, siðareglur, starfsmannastefnu og. margt annað sem lögreglunni tilheyrir.
Klukkan 13:00 13:30
Starfsmannastjórnun.
Hér eru settar fram hugmyndir um hvernig lögreglan getur tekið skipulega upp starfsgreiningar, ráðningarviðtöl, starfsmannaviðtöl, starfslokaviðtöl, frammistöðumat o.fl. og sett fram verkáætlun við innleiðingu starfsmannaviðtala og frammistöðumats.
Klukkan 13:50-14:20
Rannsóknir umferðarslysa.
Með því að setja fram spurningalista var kannað hvernig rannsóknum umferðarslysa sé almennt háttað í landinu, hvernig kennslan er í Lögregluskóla ríkisins og hvaða kröfur eru gerðar lögum samkvæmt. Gerðar eru tillögur um gæðakröfur (staðla) fyrir rannsóknir umferðarslysa og lögð fram stefnumótun þar sem m.a. er lagt upp með gerð og notkun gátlista.
Klukkan 14:40 15:00
Fækkun umferðarslysa á Norðurlandi.
Framkvæmd var staðbundin könnun í málaflokknum á árunum 1999 til ársloka 2003 og sett fram markmið um fækkun slysa frá ársbyrjun 2005 og til ársloka 2009, auk þess sem sýnt er fram á hvernig þeim markmiðum verði náð.
Klukkan 15:20 15:50
Starfsmenn lögreglunnar og verkefni þeirra.
Gerð er ítarleg grein fyrir verkefnum sérhvers hóps starfsmanna lögreglunnar samkvæmt starfsstigareglugerð og sett fram samantekt um verkefni starfshópa. Einnig er nokkuð fjallað starfslýsingar sem notaðar eru í lögreglu.