26 Mars 2013 12:00

Föstudaginn 22. mars sl. tóku starfsmenn alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra á móti fjórum starfsmönnum alþjóðadeildarinnar í Svíþjóð, International Police Cooperation Division. Tilefni heimsóknarinnar var beiðni þeirra um að efla tengsl og samstarf deildanna og miðla gagnlegri þekkingu og reynslu við afgreiðslu verkefna. Áður en komið var til Íslands höfðu starfsmenn alþjóðadeildarinnar í Svíþjóð heimsótt Slóvakíu og Litháen í sama tilgangi.

Hér á landi fengu starfsmennirnir almenna kynningu á uppbyggingu og starfsemi íslensku lögreglunnar og á embætti ríkislögreglustjóra. Þá var farið sérstaklega yfir starfsemi og verkefni alþjóðadeildar og önnur sameiginleg málefni deildanna.  Að því loknu fengu starfsmennirnir sérstaka kynningu á starfsemi samhæfingarmiðstöðvar almannavarna og fjarskiptamiðstöðvar enda þykir starfsemi umræddra deilda um margt til fyrirmyndar á Norðurlöndunum og víðar.

Alþjóðadeild annast alþjóðasamskipti og alþjóðaboðskipti á sviði löggæslu og er þjónustuskrifstofa vegna Schengen-samstarfsins, Europol, Interpol og norræna PTN-samstarfsins. Deildin veitir jafnframt almennan stuðning og aðstoð við lögreglulið og verkefni á sviði málefna útlendinga og sér m.a. um framkvæmd framsals, frávísun og brottvísun útlendinga.