21 Nóvember 2008 12:00

Löggæslumál í Kjósarhreppi voru til umræðu á fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt í Ásgarði í gær. Vel var mætt en allir fulltrúar hreppsnefndarinnar komu til fundarins og einnig formaður félagsmálanefndar. Í Kjósinni búa tæplega 200 manns og því er þetta afar fámennt sveitarfélag. Þar er hinsvegar alveg örugglega gott að búa enda fólkið friðsamt og til fyrirmyndar á flestum sviðum. Afbrot á þessu svæði eru mjög fátíð og þau má telja á fingrum annarrar handar. Þá heyrir það nánast til undantekninga ef Kjósverjar kalla til lögreglu.

Líkt og á fundinum í fyrra höfðu Kjósverjar helst áhyggjur af umferðarmálum og þá einkum hraðakstri bifhjólamanna. Einhverjir þeirra virðast venja komur sínar í Hvalfjörðinn og þá er nú ekki alltaf ekið á löglegum hraða. Fundarmenn sögðust samt sjá meira til lögreglu nú en áður og það væri til bóta. Frekari umræður sköpuðust um sýnileika lögreglu en sú hugmynd kviknaði að lögreglan fengi afdrep í hreppnum, t.d. í Ásgarði, og þangað gætu íbúarnir komið á fyrirfram ákveðnum tíma og leitaði eftir upplýsingum, aðstoð eða fræðslu ef svo bæri undir. Ákveðið var að vinna frekar með málið.

Þess má geta að rafmagnslaust var í Ásgarði á meðan fundinum stóð en viðstaddir létu það ekki á sig fá. Enda var gestum boðið upp á góða hressingu en bornar voru fram flatkökur með hangikjöti og kleinur og drukkið kaffi með. Í lokin bað Hörður Jóhannesson, svæðisstjóri í Mosfellsbæ, um orðið og þakkaði Kjósverjum fyrir ánægjulegt samstarf í gegnum tíðina. Hörður lætur brátt af störfum og verður því ekki í liði lögreglunnar þegar hún heldur aftur til fundar við Kjósverja að ári.

Stefán Eiríksson, Sigurbjörn Hjaltason og Hörður Jóhannesson.

Hermann Ingi Ingólfsson og Aðalheiður Birna Einarsdóttir.

Guðmundur Halldór Davíðsson og Steinunn Bjarney Hilmarsdóttir.