1 Júní 2007 12:00

Í gær lét Þröstur Brynjólfsson yfirlögregluþjónn á Selfossi af störfum eftir 37 ára farsælt starf í lögreglu ríkisins, fyrst á Húsavík þar sem hann hóf störf árið 1970 og varð yfirlögregluþjónn 1. mars 1982 og síðustu 11 árin hér á Selfossi. Segja má að starfskraftar hans hafi verið nýttir fram á síðustu stund því glöggir menn töldu sig þekkja hann við umferðarstjórn á vettvangi alvarlegs umferðarslyss á Suðurlandsvegi undir kvöldmat í gærkvöldi. Hann gat þess sjálfur að umferðarstjórn á vettvangi umferðarslyss hefði einnig verið verkefni hans á sínum fyrsta degi í lögreglu á Húsavík.

Þresti var haldið kveðjuhóf í félagsheimili Karlakórs Selfoss í lok vinnudags í gær. Hann hefur verið ötull baráttumaður fyrir framförum í löggæslu í störfum sínum og hverfur nú til annarra starfa við uppsetningu Tetra fjarskiptakerfis.

Oddur Árnason aðstoðaryfirlögregluþjónn hefur verið skipaður yfirlögregluþjónn á Selfossi frá og með deginum í dag að telja.

Á myndinni hér sést hvar Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri færir Þresti þakkir fyrir störf sín að löggæslumálum