23 Júlí 2004 12:00

Aðgerðir til að draga úr slysahættu vegna lausagöngu búfjár.

Lögreglan á Ísafirði hefur nú tekið saman yfirlit yfir þá vegarkafla í umdæminu sem hafa reynst hættulegir hvað búfénað varðar.  Lögreglan hvetur annars vegar eigendur sauðfjár til að gæta að því að skepnurnar séu ekki á eða við vegi.  Girðingar sem skilja að vegi og beitilönd séu heldar, en þar sem engar girðingar eru og fé leitar af afréttum að vegi, sé rekið jafnharðan þaðan.  Hins vegar eru ökumenn sérstaklega hvattir til að haga akstrinum í samræmi við þessa hættu.  Hér þurfa bæði búfjáreigendur og ökumenn að leggja sitt af mörkum til að draga úr hættunin á slysum af völdum lausagöngu búfjár á vegum.

Svo virðist sem ekið hafi verið á 20 til 25 kindur að meðaltali á ári hverju í umdæmi lögreglunnar á Ísafirði,  miðað við tilkynnt óhöpp.  Þá eru ótalin þau óhöpp sem ekki hafa verið tilkynnt til lögreglunnar.

Eins og áður sagði hefur lögreglan á Ísafirði tekið saman yfirlit yfir hættulegustu vegarkaflana, m.a. vegna tilkynntra óhappa undanfarin fjögur ár.  Þeir eru sem hér segir :

Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði, flugvöllur að Arnarnesi.        

Álftafjörður, frá Langeyri að Kambsnesi (Sjötúnahlíð).     

Súgandafjörður, Laugar að Vestfjarðagöngum.                  

Önundarfjörður, Hvilftarströndin og Bjarnadalur.              

Dýrafjörður, frá Gemlufalli að Þingeyri.                             

Skötufjörður.                                                 

Ögurnes að Þernuvík.                                                                       

Í fæstum tilvikum hlotist af þessum óhöppum slys á fólki, en tjón á ökutækjum hefur í flestum tilvikum verið umtalsvert, jafnvel hlaupið á hundruðum þúsunda króna.  Dæmi um útafakstur og veltu vegna viðbragða ökumanna við óvæntri lausagöngu eru sannarlega til staðar á vegum landsins.  Ljóst er að ábyrgð ökumanna er mikil í þessu sambandi og rétt að haga akstrinum í samræmi við hana.