12 Ágúst 2011 12:00

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við Fréttablaðið í dag, 12. ágúst 2011, að embætti ríkislögreglustjóra hafi á engan veg brugðist við beiðni Íslenskrar erfðagreiningar þess efnis að kannað væri hvort staðhæfingar um að kínversk stjórnvöld stunduðu  iðnnjósnir á sviði erfðagreiningar og læknisfræðilegra rannsókna á Íslandi ættu við rök að styðjast.

Orðrétt hefur Fréttablaðið eftirfarandi eftir Kára Stefánssyni: „Þeir gerðu ekkert í þessu og, það sem meira er, hæstvirtur innanríkisráðherra gaf út yfirlýsingu um að þetta skipti ekki máli, því menn ættu ekki að vera með svona leyndarmál!“

Fullyrðing Kára Stefánssonar um að embætti ríkislögreglustjóra hafi ekkert aðhafst í máli þessu  á ekki við rök að styðjast.

Hið rétta í málinu er eftirfarandi:

1.       Þann 8. desember 2010 ritaði Íslensk erfðagreining ríkislögreglustjóra bréf þar sem þess var farið á leit að embætti ríkislögreglustjóra rannsakaði sannleiksgildi upplýsinga frá bandarískum yfirvöldum þess efnis að kínversk yfirvöld stunduðu iðnaðarnjósnir á Íslandi þ.m.t. hjá fyrirtækjum sem störfuðu á sviði erfðavísinda. Tilefni þessa bréfs var frétt í Fréttablaðinu þessa efnis og sagði í henni að þessar upplýsingar væri að finna í skjölum bandarískra yfirvalda sem vefsíðan WikiLeaks hefði birt.

2.       Í marsmánuði 2011 sendi ríkislögreglustjóri forráðamönnum Íslenskrar erfðagreiningar bréf þar sem fram kom að aflað hefði verið upplýsinga um mál þetta. Niðurstaða þeirrar könnunar væri þess eðlis að ekki þætti ástæða til frekari viðbragða og teldist rannsókn málsins lokið. Jafnframt var forráðamönnum Íslenskrar erfðagreiningar boðið að snúa sér til embættis ríkislögreglustjóra hefðu þeir áhuga á sérfræðilegri aðstoð varðandi öryggisþætti starfseminnar.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri