31 Mars 2003 12:00

Um kl.21:00 í gærkvöldi  fóru sjómenn í Bolungarvík að undrast um mann sem farið hafði á gummíbáti með utanborðsmótor frá Bolugarvíkurhöfn um hádegisbil. Engar upplýsingar voru um ferðir mannsins en vitni að brottför hans taldi að hann hafi farið til veiða. Lögreglan í Bolungarvík boðaði út björgunarsveitina Erni í Bolungarvík þegar sýnt þótti að báturinn hafði ekki komið til hafnar í nágrannabyggðalögum. Í þann mund sem leit var að hefjast tilkynnti viðkomandi sig til strandstöðvar og var þá kominn í neyðarskýli á Sæbóli í Aðalvík og bátur hans orðinn eldsneytislítill. Menn frá björgunarsveitinni fóru á báti til að sækja manninn og komu til hafnar í Bolungarvík með manninn og búnað hans um kl. 02:00 í nótt. Ekkert amaði að manninum og var hann með nægar vistir.