3 Desember 2008 12:00

Lögreglan á Selfossi, fulltrúi svæðisstjórnar björgunarsveita í Árnessýslu og fulltrúar Landsbjargar funduðu í dag og fóru yfir gögn um leit að manni sem týndist á Skáldabúðarheiði laugardaginn 29. nóvember s.l. Leit var frestað í gær og áformað hafði verið að fara aftur til leitar á laugardag en í ljósi breyttrar veðurspár hefur þeirri leit verið flýtt til föstudagsins næstkomandi. Leitarmenn munu nú bera saman gögn um svæði sem leituð hafa verið og skipuleggja leitina á föstudaginn út frá niðurstöðu þess samanburðar.

Fjölmargir hafa komið að leitinni fram að þessu og eru skráðar mætingar orðnar yfir 500 talsins. Flestir leitarmanna hafa verið gangandi en einnig hefur verið notast við fjórhjól og hesta auk þess sem þyrla landhelgisgæslunnar hefur verið notuð við leit úr lofti. Svæðið sem leitað er er víðast hvar tiltölulega greiðfært gangandi mönnum en mikið er af gilskorningum og drögum sem nokkuð hefur fennt í og torveldar það leit.