24 Ágúst 2007 12:00

Fyrr í dag fannst slóð sem talin er vera eftir tvo menn. Slóðin lá yfir Svínafellsjökulinn í svipaðri hæð og tjöld mannanna og lá hún í átt að Hrútsfjallstindum. Hópur björgunarsveitamanna fylgdi í dag slóðinni þar til hún hvarf og eru þeir nú á leið til baka.

Lögreglumenn fóru að tjöldum til að skoða fótspor sem voru í kringum þau svo hægt væri að bera þau saman við fótspor úr slóðinni. Ekki eru enn komnar niðurstöður úr þeim samanburði.

Í dag hafa um 50 manns verið við leitarstörf og aðrir 50 bætast í hópinn í kvöld. Aðstæður til leitar eru afar erfiðar enda miklar ófærur og margar hættur á svæðinu.

Á morgun er áætlað að halda leit áfram með öllum þeim mannskap sem er tiltækur. Áhersla verður lögð á að leita vel á svæðinu umhverfis tjöld Þjóðverjanna, sendur verður hópur á þekkta gönguleið á Hrútsfjallstinda, ef veður leyfir verður flogið með hóp upp á Hvannadalshnjúk og könnuð verða hættuleg svæði, svo sem svelgir, sprungur, íshellar og fleira. Einnig verða vélsleðar notaðir við leitina uppi á Öræfajökli.

Slysavarnafélagið Landsbjörg

Ríkislögreglustjórinn

Lögreglustjórinn á Eskifirði