2 Júní 2013 12:00

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum fannst franska konan sem leitað hefur verið að síðan um miðnættið aðfaranótt 1. júní sl.   Hún hafði lagt af stað í fjallgönguferð frá Heydal í Mjóafirði um kl.10:00 þann 31. maí sl. Konan er starfandi í ferðaþjónustunni í Heydal og hafði ætlað sér í 4 klst. gönguferð.  Þegar hún hafði ekki skilað sér heim aftur hófu heimamenn og nágrannar eftirgrennslan og leit.  Þegar hún hafði ekki skilað árangri var haft samband við lögregluna á Vestfjörðum.  Í framhaldi þess var kallað eftir aðstoð svæðisstjórnar björgunarsveitanna á norðanverðum Vestfjörðum.  Leit hófst strax í framhaldinu og voru fljótlega komnir 30 björgunarsveitarmenn á staðinn til leitar frá Ísafirði og nágrenni.  Þá tók þyrla LHG þátt í leitinni umrædda nótt. 

Jafnt og þétt bættust fleiri björgunarsveitarmenn við og urðu þeir um 150 talsins þegar mest var. Þessir leitarmenn komu frá mörgum björgunarsveitum á Vestfjörðum, Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu.  Sérþjálfaðir leitarhundar björgunarsveitarmanna voru notaðir við leitina.

Svæðið sem leitað var á er erfitt yfirferðar og hamlaði það yfirferð.

Kl.23:28 í gærkveldi fann áhöfn þyrlu LGH konuna á hálendinu milli Mjóafjarðar og Skötufjarðar eftir að björgunarsveitarmenn höfðu fundið spor í snjó ekki langt frá.  Hún reyndist heil á húfi en köld og hrakin.  Konan virðist hafa vilst af leið.  Hún var flutt með þyrlu til Ísafjarðar og lögð inn á sjúkrahúsið þar.  Henni heilsast vel.

Lögreglan á Vestfjörðum vill færa öllum þeim björgunarsveitarmönnum, sem tóku með einum eða öðrum hætti þátt í þessari umfangsmiklu leit, sérstakar þakkir.  Sömuleiðis er þyrlusveit Landhelgisgæslunnar færðar þakkir fyrir þeirra aðkomu.