30 Júní 2021 19:40

Mikil hlýindi og leysingar hafa verið á Seyðisfirði síðustu daga líkt og í fjórðungnum almennt. Vatnavextir því í ám og lækjum. Búðaráin hefur vaxið á síðustu dögum og farin að grafa í lausefni í skriðusári stóru skriðunnar er féll í desember svo sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Búast má við áframhaldandi leysingum næstu daga og að áin verði mórauð. Hætt er við að litlar fyllur geti fallið í hana. Mælar hafa ekki gefið vísbendingar um umfangsmiklar hreyfingar og vatnshæð í borholum hefur ekki aukist mikið almennt. Að svo stöddu er því ekki talin hætta í byggð en fólki ráðið frá að vera á ferðinni innst við farveg Búðarár. Áfram verður fylgst með aðstæðum af hálfu Veðurstofu.