28 September 2010 12:00

Karlmaður á þrítugsaldri var að beiðni lögreglunnar á Selfossi úrskurðaður, í Héraðsdómi Suðurlands, í gæsluvarðhald til næstkomandi mánudags vegna meintrar líkamsárásar.  Um kl. tíu í gærmorgun var lögregla kölluð að íbúðarhúsi í Hveragerði vegna manns sem hafði brotið sér leið inn og ráðist á konu.  Maðurinn hvarf af vettvangi í bifreið sem hann ók en var handtekinn við Rauðavatn af lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu.  Maðurinn var færður í fangageymslu á Selfossi.  Konan var flutt á slysadeild Landspítala þar sem gert var að áverkum hennar sem voru einkum á höfði.  Réttarmeinafræðingur var fenginn til að meta áverkana og taldi að þeir hefðu hlotist af barefli.  Maðurinn og konan þekkjast en ekki liggur fyrir um aðdraganda árásarinnar og er sá þáttur  meðal annars til rannsóknar.  Konan er ekki með alvarlega áverka en með tilliti til þess að maðurinn beitti vopni er verknaðurinn alvarlegur og er heimfærður til 218.2 greinar almennra hegningarlaga.  Maðurinn var með í fórum sínum lítilræði af amfetamíni auk þess var hann ekki með ökuréttindi og grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.