18 Janúar 2012 12:00

Rúmlega 150 þúsund krónur söfnuðust í Líknar- og hjálparsjóð Landssambands lögreglumanna þegar starfsmenn á lögreglustöð 5 tóku sig til fyrir jólin og héldu sitt árlega aðventukaffi. Boðið var upp á heitt súkkulaði og smákökur en peningarnir söfnuðust með því að selja svuntur og happdrættismiða en margir góðir vinningar voru í boði. Auk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru margir sem styrktu þetta góða verkefni og ber þar sérstaklega að nefna Múlakaffi. Á meðfylgjandi mynd eru þær Kristín Ósk Guðmundsdóttir og Þórný Þórðardóttir, sem báru hitan og þungan af aðventukaffinu og öllu sem því fylgdi,  að afhenda fulltrúum Líknar- og hjálparsjóðsins, þeim Gissuri Guðmundssyni og Benedikt Lund, afraksturinn af þessu góða framtaki.

Á tuttugu árum hefur tæplega 18 milljónum króna verið úthlutað úr Líknar- og hjálparsjóði Landssambands lögreglumanna en sjóðurinn var stofnaður árið 1992. Samtals hafa á annað hundrað aðilar, bæði einstaklingar og ýmiss samtök, notið góðs af og sannarlega hefur styrkur úr sjóðnum komið þeim öllum vel enda aðstæður hjá fólki oft mjög erfiðar. Lögreglumenn greiða í sjóðinn mánaðarlega en þeir selja líka merki og ýmis kort í fjáröflunarskyni.