20 Desember 2012 12:00

Rúmlega 100 þúsund krónur söfnuðust í Líknar- og hjálparsjóð Landssambands lögreglumanna þegar starfsmenn á lögreglustöð 5 tóku sig til og héldu sitt árlega aðventukaffi. Boðið var upp á heitt kakó með rjóma og ljúffengar smákökur en peningarnir söfnuðust með því að samhliða var haldinn kökubasar auk þess sem seldir voru forláta kaffibollar. Á þeim er mynd af góðkunningja lögreglunnar, teiknuð af Guðmundi Ingi Rúnarssyni varðstjóra. Kaffibollarnir, sem kosta 1.000 kr., hafi vakið verðskuldaða athygli og þegar síðast fréttist voru enn allnokkrir til sölu, en áhugasamir geta sett sig í samband við afgreiðslu lögreglunnar á Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík, eða sent fyrirspurn á fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, til að ná sér í bolla.

Jóhann Karl Þórisson og Þórný Þórðardóttir afhentu Gissuri Guðmundssyni, formanni Líknar- og hjálparsjóðs LL, afraksturinn af þessu góða framtaki.

Góðkunningi lögreglunnar.