9 Nóvember 2011 12:00
Á tæplega tuttugu árum hefur rúmlega 17 milljónum króna verið úthlutað úr Líknar- og hjálparsjóði Landssambands lögreglumanna en sjóðurinn var stofnaður árið 1992. Samtals hafa á annað hundrað aðilar, bæði einstaklingar og ýmiss samtök, notið góðs af og sannarlega hefur styrkur úr sjóðnum komið þeim öllum vel enda aðstæður hjá fólki oft mjög erfiðar. Lögreglumenn greiða í sjóðinn mánaðarlega en þeir selja líka merki og kort í fjáröflunarskyni. Þetta eru líknar-, minningar- og jólakort og svo merkið, sem sést hér á síðunni, en það teiknaði Guðmundur Ingi Rúnarsson varðstjóri. Merkið kostar kr. 500 og má nálgast í afgreiðslu lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu eða á skrifstofu Landssambands lögreglumanna á Grettisgötu 89 í Reykjavík. Í stjórn Líknar- og hjálparsjóðs LL eru Gissur Guðmundsson, formaður, Dóra Björk Reynisdóttir og Benedikt Lund.