24 Janúar 2013 12:00

Fyrstu tvær helgar þessa mánaðar framkvæmdi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu talningu á því hversu mörg ökutæki væru án annars eða beggja aðalljósa að framan.   

Talningar fóru fram á átta vegarköflum stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu. Talningar voru tólf alls og stóðu yfir í fimmtán mínútur í senn. Á fjórum vegarköflum var því talið tvisvar á mismunandi tímum.  

Alls voru 2.962 ökutæki talin og reyndist ljósabúnaði áfátt hjá 228 þeirra eða í 7,7% tilvika. (þ.e. vantaði annað eða bæði aðalljós að framan.)

Önnur sambærileg talning fór fram um síðustu helgi þar sem þó var einungis kannað hversu mörg ökutæki væru án beggja aðalljósa að framan. Sú talning var viðaminni, fór fram á tveimur vegarköflum og stóð yfir í 30 mínútur í senn.

Alls voru 829 ökutæki talin og kom í ljós að einungis þrjú þeirra reyndust með hvorugt aðalljós logandi eða 0,4% ökutækja. Niðurstaða sambærilegrar talningar Umferðarstofu frá árinu 2011 sýndi að 1% ökutækja í umferð á höfuðborgarsvæðinu væru án aðalljósa að framan.

Lögreglan stefnir að því að gera fleiri sambærilegar kannanir á þessu ári og þeim næstu, eftir atvikum í samstarfi við Umferðarstofu, með það að markmiði að greina umfang vandans og þróun með mögulegar aðgerðir í huga.  

Lögreglan hvetur ökumenn hins vegar sem fyrr til að gæta vel að ljósabúnaði ökutækja sinna og tryggja að það mikilvæga öryggistæki sé í lagi.