3 September 2006 12:00

Fréttatilkynning vegna Ljósanætur 2006.

Lögreglan í Keflavík, í samsstarfi við starfsmenn Reykjanesbæjar þ.e.a.s. Ljósanefnd, félagsþjónustu, útideild og starfsmenn áhaldahúss, Björgunarsveitina Suðurnes og Brunavarnir Suðurnesja,  var með mikinn viðbúnað vegna Ljósanætur í Reykjanesbæ 2006.  Lögregla var með aukinn mannafla frá fyrri árum og var ekki vanþörf á því miklar annir fylgdu hinum aukna fjölda sem heimsótti bæinn af þessu tilefni, enda veður með allra besta móti og dagskráratriði fjölbreyttari og fleiri en áður.   Telja menn að þegar mest var, á laugardagskvöldinu rétt fyrir flugeldasýninguna, að  mannfjöldinn hafi verið hátt í 40.000 manns.  Hátt á þriðja hundrað mótorhjól, fjöldi fornbíla og ökutækji frá 4×4 klúbbnum komu í bæinn.  Þá kom fólk á 120 húsbílum og 40 skemmtibátar voru í og við smábátahöfnina.   

Hátíðarhöldin fóru mjög vel fram, mikill glæsibragur var á hátíðarhöldunum enda dagskrá enn fjölbreyttari en áður.  Fylgdi þessu mikil og góð stemming og þeir sem fóru heim að lokinni flugeldasýningu héldu heimleiðis með góðar minningar frá glæsilegri Ljósanótt.  

En þá voru ekki allir búnir að fá nóg, mjög margir voru eftir í miðbæ Keflavíkur og sóttu skemmtistaðina sem voru sumir opnir fram undir morgun.  Þá versnaði ástandið og mikið var um ölvun og óspektir í miðbænum og umgengni um bæinn afar slæm.  Þeir skemmtanaglöðustu voru farnir að þreytast um kl. 04:00 og eftir þann tíma var mikið var að gera hjá lögreglumönnum sem voru fjölmennir í miðbænum.   Mikið var um pústra á milli manna, en talið er að aðeins sé um eitt til tvö tilvik að ræða sem munu skrást sem líkamsárás vegna áverka sem af hlutust.

Félagsþjónusta Reykjanesbæjar, lögregla, útideild og foreldrar voru með sameiginlegt athvarf fyrir ungmenni.  Samtals um helgina, aðfaranótt laugardags og sunnudags,  voru 68 ungmenni færð í athvarfið af lögreglu.  Þar var haft samband við foreldra til þess að sækja börnin. Í flestum tilvikum var um ölvun að ræða.

Öflugt fíkniefnaeftirlit var alla helgina og fékk lögreglan í Keflavík aðstoð frá lögreglu-og tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli, lögreglunni í Hafnarfirði, Kópavogi og frá Ríkislögreglustjóra.   Um helgina komu samtals upp 16 fíkniefnamál. Í öllum tilfellum var um neyslumál að ræða og magn fíkniefna sem lagt var hald á var ekki mikið. 

11 gistu fangageymslur lögreglunnar um helgina.  Þá voru tveir teknir fyrir ölvun við akstur. 

Einn mjög harður árekstur og umferðarslys varð kl. 18:30 á laugardeginum en aðilar hlutu sem betur fer ekki alvarlega áverka að talið er.

Á sunnudagsmorguninn var tilkynnt um tvo innbrot í Reykjanesbæ.

Heilt á litið gekk þetta allt vel, en hinn frjálsi opnunartími veitingastaða í Reykjanesbæ hlýtur að kalla á endurskoðun.