11 Júní 2007 12:00

Löggæsluáætlun – tímamót í löggæslu

Haraldur Johannessen

„Að því er stefnt að löggæsluáætlun verði upphaf nýrra tíma með skilvirkari löggæslu, almenningi til heilla.“

Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á embætti ríkislögreglustjóra sem kynnt var í október á síðasta ári var með jákvæðum hætti fjallað um þátt embættisins í margvíslegum framförum innan lögreglunnar. Í skýrslu sinni komst Ríkisendurskoðun m.a. að þeirri niðurstöðu að fela ætti embætti ríkislögreglustjóra fleiri verkefni á sviði stjórnsýslu, svo sem gerð árangursstjórnunarsamninga. Jafnframt benti Ríkisendurskoðun á að ekki hefði verið gerð heildstæð frumstefna í löggæslumálum hér á landi.

Dóms- og kirkjumálaráðherra og ríkislögreglustjóri skrifuðu í mars sl. undir árangursstjórnunarsamning sín á milli. Í samningnum kemur fram að ríkislögreglustjóri fari með daglega yfirstjórn lögreglu og almannavarna í umboði dóms- og kirkjumálaráðherra og að meginhlutverk ríkislögreglustjóra sé að leiða lögregluna í landinu og standa vörð um öryggi almennings. Þá var ríkislögreglustjóra í samningnum falið að gera tillögur að löggæsluáætlun til dóms- og kirkjumálaráðherra sem gilda ætti til næstu fimm ára.

Í maí sl. kynnti Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, löggæsluáætlun fyrir árin 2007 til 2011. Er það í fyrsta sinn sem slík heildstæð stefna um störf og framtíðarsýn lögreglu er gerð og því um að ræða tímamót í löggæslumálum.

Í löggæsluáætlun kemur fram að stjórnsýsluhlutverk embættis ríkislögreglustjóra er aukið til muna og er embættinu falið að gera árangursstjórnunarsamning við hvern og einn lögreglustjóranna 15. Hver samningur skal taka mið af því lögregluumdæmi sem í hlut á. Þannig verða meginmarkmið lögreglunnar þau sömu alls staðar á landinu. Engu að síður er gert ráð fyrir að áhersla á einstaka málaflokka geti verið ólík milli lögregluumdæma. Samræmd afbrotatölfræði fyrir allt landið verður unnin við embætti ríkislögreglustjóra og kynnt mánaðarlega. Með því móti verður unnt að mæla með öruggum hætti hvort leiðir að markmiðum í löggæslu beri árangur. Einnig hvernig unnt verði að bregðast við aukinni afbrotatíðni. Með þessari aðferðarfræði er tekist á við löggæslumálefni á markvissan og skilvirkan hátt. Þá hefur að undanförnu verið unnið að stöðumati og framtíðarsýn hjá öllum lögregluembættum landsins, sem er fyrsta skref þeirrar vinnu sem framundan er við að framfylgja löggæsluáætluninni.

Helstu áhersluatriði löggæsluáætlunar eru eftirfarandi:

* Að lögregla tryggi öryggi borgaranna og stöðugleika í samfélaginu með aukinni samhæfingu og samvinnu milli lögregluembætta

* Að lögregla sé í stakk búin til þess að taka þátt í samstarfi innlendra og erlendra öryggisstofnana

* Að löggæsla byggist á skýrum lagaheimildum og áreiðanlegu greiningar- og rannsóknarstarfi

* Að starfsfólk lögreglu sé vel menntað og vel þjálfað til að takast á við krefjandi verkefni

* Að starfsfólki lögreglu verði búið öruggt starfsumhverfi

* Að lögregla njóti almenns trausts og trúverðugleiki hennar verði ekki með réttu dreginn í efa

Embætti ríkislögreglustjóra hefur tekið miklum breytingum frá stofnun þess 1. júlí 1997. Nefna má að rík áhersla hefur verið lögð á alþjóðasamstarf, einkum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Sérsveit embættisins hefur verið styrkt og er til taks fyrir öll lögregluembætti landsins en markmiðið með fjölgun í sveitinni er að auka öryggi almennings og lögreglumanna. Almannavarnir ríkisins voru færðar til embættisins árið 2003 og hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra aðlagast breyttum kröfum frá þeim tíma og hefur á að skipa hæfustu sérfræðingum á sviði almannavár. Stofnuð var greiningardeild við embættið með breytingum á lögreglulögum er tóku gildi 1. janúar sl. Starfsemi greiningardeildarinnar miðar að því að tryggja öryggi ríkisins og samræma starfsemi lögreglu til þess að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, ógn af hryðjuverkum og öfgahópum, njósnastarfsemi og hverju því sem varðar öryggi ríkisins og krefst alþjóðlegs samstarfs og áhættugreiningar. Rannsóknir efnahagsbrota hafa á liðnum árum verið áberandi í opinberri umræðu um störf embættisins. Starfsmenn á því sviði eru vel menntaðir með mikla reynslu og hafa tekist á við krefjandi verkefni.

Hinn 1. janúar sl. var skipulagi embættisins breytt í samræmi við nýjar áherslur og framtíðarsýn. Þannig hefur embættið vaxið og aðlagast nýjum kröfum til löggæslu og breyttum þjóðfélagsaðstæðum.

Ljóst má vera að með heildstæðri stefnu í löggæslumálum er ástæða til að horfa björtum augum til framtíðar. Að því er stefnt að löggæsluáætlun verði upphaf nýrra tíma með skilvirkari löggæslu, almenningi til heilla. Nálgast má löggæsluáætlunina á vef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á slóðinni www.domsmalaraduneyti.is.