4 Desember 2007 12:00

Að undanförnu hafa fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fundað með lykilfólki í hverfum og á svæðum í umdæminu en þessari fundarröð lauk í Breiðholti í gær. Líkt og á fyrrum fundum var vel mætt og er greinilegt að fólk lætur sig löggæslumál miklu varða. Fundurinn með Breiðhyltingum var hinn gagnlegasti en hann var haldinn í þjónustumiðstöðinni í Álfabakka. Stefán Eiríksson lögreglustjóri kynnti markmið og stefnu embættisins en síðan fór Heimir Ríkarðsson, aðalvarðstjóri á svæðisstöðinni í Breiðholti, yfir stöðu og þróun mála. Hverfið hefur að mörgu leyti ýmsa sérstöðu og er t.a.m. bæði mjög fjölmennt og fjölþjóðlegt. Engu að síður verður ekki annað séð en sambýli íbúanna gangi mjög vel.

Þegar litið er á tölur í nýútkominni skýrslu, Afbrot á höfuðborgarsvæðinu, má m.a. sjá nokkra hlutfallslega aukningu eignaspjalla í Breiðholti á milli áranna 2005 og 2006, eða úr 10,8% í 14,3%. Þess ber þó að geta að fjölgun brota er ekki síst tilkomin vegna frumkvæðisvinnu lögreglumanna og þá er sömuleiðis lögð áhersla á að fólk tilkynni öll brot. Á hinn bóginn er sömuleiðis vert að benda á hlutfallslega fækkun innbrota í hverfinu á sama tímabili, eða úr 13% í 12%. Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn tók við að loknu erindi Heimis og fjallaði um umferðarmál. Í framhaldinu spunnust nokkrar umræður um umferðarmál enda höfðu fundarmenn sterkar skoðanir þegar kom að þessum málaflokki. Talsvert var einnig rætt um unga afbrotamenn og til hvaða ráða væri hægt að grípa gegn þeim. Þá var sömuleiðis fjallað um ráð til að fækka innbrotum en í því samhengi var m.a minnst á öflugt hverfisrölt, sem er í raun frekari útfærsla á foreldrarölti. Að síðustu kynnti lögreglustjóri þá hugmynd að halda opinn íbúafund snemma á næsta ári en um það verður fjallað frekar á lögregluvefnum þegar nær dregur.

Björn Bjartmarz, Selma Haraldsdóttir og Heimir Ríkarðsson standa vaktina í Breiðholtinu.