13 Nóvember 2007 12:00

Málefni Háaleitis og Laugardals voru í brennidepli á fundi sem lögreglan stóð fyrir í þjónustumiðstöðinni í Síðumúla í gær. Á honum var farið yfir stöðu mála í hverfunum en svipaður íbúafjöldi er í þeim báðum og þá er aldursskipting íbúa mjög svipuð. Stefán Eiríksson lögreglustjóri hafði orðið í upphafi en í máli hans kom fram að með tilkomu sameinaðs lögregluliðs á höfuðborgarsvæðinu um síðustu áramót hefði verið unnið að því að efla og styrkja lögregluna á öllum sviðum. Því verki miðar vel en merki þess má m.a. sjá í aukinni sýnilegri löggæslu. Eiður H. Eiðsson svæðisstjóri var næstur á mælendaskrá en hann fór mjög ítarlega yfir stöðu mála í Háaleiti og Laugardal og fjallaði t.d. um hegningarlagabrot en þeim hefur fækkað lítillega, þ.e. hlutfallslega. Því næst kom röðin að Agli Bjarnasyni yfirlögregluþjóni en hann kynnti stefnu og markmið umferðardeildar. Í þeim felst m.a. að fækka slysum og draga úr umferðarhraða.

Eftir framsögur þremenninganna tóku við líflegar umræður en rúmlega þrjátíu manns sóttu fundinn. Veggjakort og hnupl bárust í tal og hraðakstur sömuleiðis. Einn fundarmanna lagði til að foreldrar hættu að keyra börnin í skólann en með því mætti auka umferðaröryggi verulega! Annar fundarmanna sagði löngu orðið tímabært að fá göngubrú yfir Bústaðaveg og sá þriðji varaði sérstaklega við hraðakstri á Laugalæk. Eftirlitsmyndavélar voru nefndar til sögunnar sem heppileg tæki til að draga úr veggjakroti og nokkrir fundarmanna töldu mjög til bóta að bæta lýsingu á helstu útivistarsvæðum og var Laugardalurinn tiltekinn í því sambandi. Óskað var eftir frekara samstarfi við lögregluna á sviði forvarnarmála og var það auðsótt mál. Fundarmönnum var t.d. bent á svokallaða 7. bekkjarfræðslu sem stendur öllum skólum til boða en þar fyrir utan er lögreglan ávallt tilbúin að rétta fram hjálparhönd. Langur opnunartími matvöruverslana kom sömuleiðis til umræðu en ekki eru allir sáttir við núverandi fyrirkomulag í þeim efnum.

Á fundinum var nýr hverfislögreglumaður kynntur til sögunnar en Ásdís Haraldsdóttir mun taka við því hlutverki um næstu mánaðamót. Þess má einnig geta að fyrirhugaðir eru opnir íbúafundir í Háaleiti og Laugardal síðar í vetur en um þá verður fjallað á lögregluvefnum þegar nær dregur.

Eiður H. Eiðsson, Ásdís Haraldsdóttir og Ólafur G. Emilsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður svæðisstöðva.

Fulltrúar íbúa í Háaleiti og Laugardal höfðu ýmislegt til málanna að leggja.