26 Nóvember 2008 12:00

Um þrjátíu manns sóttu fund sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt í fundarsal bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á mánudag. Um var að ræða árlegan fund sem lykilfólki í sveitarfélaginu er boðið til en á honum var farið ítarlega yfir stöðu mála í sveitarfélaginu. Hörður Jóhannesson, svæðisstjóri lögreglunnar í Mosfellsbæ,  fór yfir þróun mála en fíkniefnabrotum fækkaði talsvert á svæðinu á síðasta ári í samanburði við árið 2006. Á sama tímabili fækkaði einnig umtalsvert tilkynningum um eignaspjöll. Ofbeldisbrot eru jafnmörg á milli ára og það sama er næstum hægt að segja um auðgunarbrot, þar með talin innbrot. Umferðarmál voru einnig til umfjöllunar en Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn kynnti helstu niðurstöður í þeim málaflokki. Líkt og annars staðar í umdæminu hefur umferðaróhöppum, þar sem slys hafa orðið á fólki, fækkað í Mosfellsbæ það sem af er árinu. Fyrstu átta mánuði ársins voru 15 slys af þessu tagi skráð hjá lögreglu en á sama tímabili árið 2007 voru þau 18. Í umdæminu öllu nemur fækkunin um 15% en í þeim samanburði er reyndar átt við fyrstu sjö mánuði áranna 2007 og 2008 en byggt er á upplýsingum frá Umferðarstofu.

Á fundinum var einnig kynnt niðurstaða könnunar um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. Svarendur í Mosfellsbæ voru frekar fáir og því er erfitt að meta viðhorf þeirra til lögreglu. Því ber að taka útkomunni með þeim fyrirvara. Af þeim sem tóku afstöðu má nefna að fjórðungur taldi lögreglu ekki skila nógu góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í sveitarfélaginu. Hinsvegar telja Mosfellingar sig engu að síður mjög örugga þegar þeir eru á ferð í sínu byggðarlagi eftir að myrkur er skollið á en 95% íbúa töldu svo vera. Öryggistilfinning íbúa er því hvergi meiri en í Mosfellsbæ. Ótal margt annað kom til umræðu en fundarmenn höfðu m.a. áhyggjur af efnahagsástandinu og ýmsum afleiðingum þess. Rætt var um innbrotavarnir en margt er hægt að gera í þeim efnum og þarf ekki alltaf að kosta miklu til.

Ingibjörg Briem, Guðmundur Sigmundsson og Elín Gunnarsdóttir.

Haraldur Sverrisson og Stefán Eiríksson.

Marteinn Magnússon og Hulda Sólrún Guðmundsdóttir.

Hafsteinn Pálsson og Herdís Sigurjónsdóttir.