11 Janúar 2013 12:00

Lögreglunni á Suðurnesjum hafa borist upplýsingar um að fólk hafi fengið smáskilaboð, SMS, í farsíma sína þar sem því er tilkynnt að það hafi unnið stóra erlenda lottóvinninga. Síðan eru gefnar upp upplýsingar um tengilið vegna vinningsins.

Lögreglan varar fólk við að svara slíkum skeytum eða taka mark á þeim með nokkrum hætti. Um sams konar svindl er að ræða og tíðkast hefur í sambærilegum tölvupóstum sem flætt hafa yfir og eru orðnir alþekktir. Embætti Ríkislögreglustjóra hefur margsinnis sent út viðvaranir til fólks af svipuðum tilefnum.