30 Desember 2004 12:00

Á áttunda tímanum í morgun stöðvaði lögreglan á Ísafirði för karlmanns á þrítugsaldri og stúlku á sautjánda ári á Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði.  En þau virtust vera að koma akandi innan úr Ísafjarðardjúpi.  Grunur lék á um að ökumaður væri með fíkniefni í fórum sínum, en hann hefur áður komið við sögu vegna fíkniefnamála.  Við leit í bifreiðinni fundust tæp 4 grömm af ætluðu amfetamíni og tæp 3 grömm af ætluðum kannabisefnum.

Stúlkunni var ekið til síns heima og komið í hendur foreldris, að leit lokinni.  Tilkynning um afskipti lögreglunnar af stúlkunni verður send barnaverndaryfirvöldum, eins og lög gera ráð fyrir.  Karlmanninum var sleppt að leit og yfirheyrslu lokinni. 

Athygli vekur að um er að ræða sama aðila og var stöðvaður í Álftafirði aðfaranótt 21. desember sl.  Þá var hann, ásamt fleirum, að koma akandi frá Reykjavík.  Þá fundust um 50 grömm af kannabisefnum við þá handtöku.

Við aðgerðir lögreglunnar í morgun naut lögreglan á Ísafirði aðstoðar fíkniefnaleitarhundsins Dofra.