7 Apríl 2006 12:00

Fíkniefnamál.

Fyrstu þrjá mánuði ársins hefur lögreglan á Ísafirði haft afskipti af aðilum, grunuðum um fíkniefnamisferli, í alls 8 málum.  Þannig hefur fíkniefnamálum fjölgað í umdæmi lögreglunnar á Ísafirði ef miðað er við fyrstu þrjá mánuði undanfarinna ára.  Auk þessarar fjölgunar hefur lögreglunni tekist að leggja hald á mun meira magn fíkniefna fyrstu þrjá mánuði ársins, í samanburði við sama tímabil undanfarinna ára, eða rúm 265 grömm af hassi og tæp 30 grömm af amfetamíni.  Rétt er að geta þess að lögreglan á Ísafirði hefur haldlagt árlega um 140 grömm af ólöglegum vímuefnum, að meðaltali undanfarin 7 ár.

Þennan árangur má þakka auknu eftirliti lögreglunnar á Ísafirði með aðilum sem grunaðir eru um neyslu og dreifingu fíkniefna í umdæminu og mun hún ekkert gefa eftir í þeirri vinnu.  Lögreglan vill nota tækifærið til að þakka öllum þeim aðilum sem hafa veitt henni stuðning með einum eða öðrum hætti við þessa vinnu.  Í sumum tilvikum er um að ræða ábendingar og er nafnleyndar að sjálfsögðu gætt þegar slíkar upplýsingar berast lögreglumönnum.

Hraðakstur.

Ef afbrotatölfræði fyrstu þrjá mánuði ársins eru bornar saman við sama tímabil allt til og með árinu 1999 má sjá að aldrei hafi eins fáir ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Ísafirði.  Þannig voru 29 ökumenn kærðir fyrstu þrjá mánuði þessa árs, en að meðaltali hafa þessar kærur verið 42 á þessu sama tímabili, undanfarin 7 ár.  Eftirlit með hraðakstri hefur aukist og má fullyrða að hér er ekki um að ræða minna eftirlit lögreglu heldur hið gagnstæða.

Innbrot.

Engin innbrot hafa verið tilkynnt til lögreglunnar þessa fyrstu þrjá mánuði ársins, en þó svo að innbrot hafi verið fátíð í umdæmi lögreglunnar á Ísafirði hafa þau verið 1 til 5 á sama tímabili undanfarin ár. 

Öryggisbeltanotkun.

Þessa fyrstu þrjá mánuði ársins hefur lögreglan ekki haft afskipti af ökumönnum vegna brota á þessu ákvæði umferðarlaganna. Hins vegar liggur fyrir að lögreglan á Ísafirði mun auka eftirlit sitt, næstu vikur, með því að ökumenn og farþegar noti öryggisbelti.  Sömuleiðis að ökumenn noti handfrjálsan búnað, tali þeir í farsíma á ferð.