21 September 2003 12:00

Á sextánda tímanum í gær fann lögreglan á Ísafirði tæp 90 grömm af kannabisefnum, n.t.t. hassi.

Tildrögin voru þau að þrjú ungmenni voru stöðvuð, við venjubundið eftirlit lögreglu, á Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði, handan Ísafjarðar.  Um var að ræða tvo drengi, annan 20 ára og hinn 24 ára, og 16 ára gamla stúlku.

Ungmennin voru að koma akandi frá Reykjavík.  Drengirnir tveir höfðu farið akandi þangað deginum áður og kom stúlkan með þeim vestur í bifreiðinni.

Fljótlega vöknuðu grunsemdir um að ungmennin hefðu fíkniefni í fórum sínum og voru þau og bifreiðin færð á lögreglustöðina.  Þar var framkvæmd leit í bifreiðinni og fundust tæp 90 grömm af hassi við þá leit, eins og áður sagði, auk áhalds til fíkniefnaneyslu.

Ungmennin gistu fangageymslu lögreglunnar í nótt og hafa verið yfirheyrð.  Þeim hefur öllum verið sleppt.  Drengirnir tveir hafa viðurkennt að hafa sótt fíkniefnin umræddu til Reykjavíkur og ætlað að neyta þeirra þegar til Ísafjarðar kæmi.  Vegna magnsins hefur málið verið rannsakað með það í huga ætlunin hafi verið að selja efnið á Ísafirði og nágrenni. Ungmennin þrjú hafa öll viðurkennt að hafa neytt hluta efnisins.

Að auki var fjórði aðilinn handtekinn á Ísafirði í gærdag, 17 ára gamall drengur, eftir að efnin fundust í bifreiðinni.  Sá aðili hafði lánað bifreiðina til ferðarinnar.  Hann er grunaður um að eiga aðild að því fíkniefnamisferli sem til rannsóknar er. 

Við leitina í bifreiðinni naut lögreglan á Ísafirði aðstoðar fíkniefnaleitarhundsins Dofra, sem er í eigu eins lögregluvarðstjórans á Ísafirði.  Þar sannaði Dofri að hann skipar sér í hóp fremstu fíkniefnaleitarhunda landsins.