31 Desember 2005 12:00

Um kl.08:00 að morgni 30. desember sl. stöðvaði lögreglan á Ísafirði för þriggja karlmanna á þrítugsaldri í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi.  Menn þessir, sem allir hafa áður komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála, voru í einni og sömu bifreiðinni að koma frá Reykjavík.  Lögreglan hafði fengið pata af ferðum þeirra og vöknuðu grunsemdir um að þeir væru með fíkniefni meðferðis.  Þær grunsemdir reyndust á rökum reistar því við leit í bifreið mannanna fundust ætluð fíkniefni, n.t.t. amfetamín og kannabisefni.  Um var að ræða um 12 grömm af ætluðu amfetamíni og rúml. 2 grömm af kannabisefnum.

Mennirnir voru allir færðir á lögreglustöðina á Ísafirði og þar til yfirheyrslu.  Í framhaldi var framkvæmd húsleit á heimili tveggja þeirra, sem er á Ísafirði.  Áhöld sem bera með sér að hafa verið notuð til fíkniefnaneyslu fundust við þá leit.  Mönnunum var öllum sleppt að yfirheyrslum loknum, rétt undir miðnætti sama dag.

Lögreglan vill hvetja almenning til að gera sér viðvart ef hann verður var við grunsamlegar mannaferðir eða annað háttarlag er gæti bent til meðhöndlunar fíkniefna.  Að sjálfsögðu er nafnleyndar gætt við slíka upplýsingagjöf.