11 Maí 2005 12:00

Lögreglumönnum á Akureyri verður fjölgað um fjóra eftir að jafnmargir sérsveitarmenn þar verða leystir undan föstum vöktum til þess að sinna sérstökum- og almennum löggæslustörfum á Norður- og Austurlandi.  Sérsveitarmennirnir fjórir verða starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra með aðsetur á Akureyri og undir daglegri stjórn lögreglustjórans þar.  Ríkislögreglustjóri leggur til bifreið og annan búnað sérsveitarinnar og vinnur að því í samvinnu við lögreglustjórann á Akureyri að útfæra nánar fyrirkomulag á störfum þeirra. 

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti þessar breytingar á fundi með blaðamönnum sem haldinn var á Akureyri í gær. Í féttatilkynningu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kemur fram að athafnarsvæði sérsveitarmannanna sé ekki bundið við umdæmi lögreglustjórans á Akureyri, heldur eigi þeir að sinna verkefnum þar sem helst er talin nauðsyn hverju sinni.  Sé þar horft til verkefna í tengslum við stórframkvæmdir á Austurlandi, aðgerðir gegn fíkniefnasölum og handrukkurum á Norður og Austurlandi og annarri skipulagðri glæpastarfsemi, svo og til almennrar löggæslu að öðru leyti.

Björn Jósef Arnviðarson, lögreglustjóri, Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra og Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, á blaðamannafundi sem dómsmálaráðherra efndi til á lögreglustöðinni á Akureyri í gær.