7 Febrúar 2012 12:00

Lögreglumenn á Selfossi gerðu tvær húsleitir í dag vegna gruns um ólöglega áfengisframleiðslu.  Um hádegið var farið í íbúðarhús á Stokkseyri þar sem fundust rúmlega 400 lítrar af gambra og 14 lítrar af tilbúnum landa. Áfengið var haldlagt og einn maður var handtekinn í tengslum við málið og færður til yfirheyrslu. Hann viðurkenndi brot sitt.  Síðdegis var gerð húsleið í íbúðarhúsi á Selfossi.  Þar fundust um 150 lítrar af gambra og um 24 lítrar af landa.  Sýni hafa verið tekin af landanum og miðinum og verða þau send til rannsóknar á rannsóknarstofu þar sem vínandamagn verður mælt.  Að rannsókn lokinni verður málið sent ákæranda til frekari ákvörðunar.