7 Maí 2009 12:00

Í dag, fimmtudag, hafa lögreglumenn ásamt eftirlitsmönnum frá Vegagerð ríkisins haft afskipti af rúmlega 100 ökumönnum díselbifreiða og tekið sýni úr eldsneytisgeymi ökutækja þeirra til að kanna hvort lituð olía væri í tönkunum.  Eftirlitið fór fram á Selfossi og nágrenni.  Af þessum rúmlega 100 reyndist einn vera með litaða olíu og var hann kærður fyrir það sem er brot á 5. mgr. 19. gr. laga nr. 87/2004, lög um olíugjald og kílómetragjald.  Sé lituð olía notuð á skráningarskylt ökutæki, varðar það sektum frá 200.000 krónum til 1.250.000 króna.  Sektarhæðin fer eftir heildarþyngd ökutækis.  Jafnframt þessu var verið að kanna með ástand ljósabúnaðar og annars á kerrum og öðrum tegnitækjum.

Í gær á milli klukkan sjö og níu stöðvuðu lögreglumenn um 500 ökumenn á Suðurlandsvegi við Litlu kaffistofuna í Svínahrauni.  Þetta var gert til að kanna ástand ökumanna og ökutækja.  Einn ökumanna reyndist með útrunnið ökuskírteini.  Þó nokkrir voru ekki með ökuskírteini meðferðis.  Að öðru leyti var ástand ökumanna og ökutækja í góðu lagi.