12 Nóvember 2008 12:00
Í gærdag handtók lögreglan á Vestfjörðum tvo menn sem voru að koma með áætlunarflugi til Ísafjarðar frá Reykjavík. Þeir voru grunaðir um að hafa fíkniefni í fórum sínum. Við leit á mönnunum fannst lítilræði af kannabisefnum og ætluðu amfetamíni. Mönnunum var sleppt að yfirheyrslu lokinni. Þeir hafa báðir komið við sögu lögreglu áður.
Á árinu 2008 hefur lögreglunni á Vestfjörðum orðið vel ágengt í fíkniefnaeftirliti. Það sem af er þessu ári hefur lögreglan lagt hald á 800 grömm af fíkniefnum í 41 haldlagningu. Til samanburðar hefur að meðalatali verið lagt hald á um 220 grömm af fíkniefnum í 22 haldlagningum, undanfarin 5 ár.
Lögreglan á Vestfjörðum hvetur almenning til að vera vel á varðbergi og veita allar upplýsingar um fíkniefnameðhöndlun, því ekkert verður gefið eftir gagnvart fíkniefnadreifingu í umdæminu. Þeir sem hafa slíkar upplýsingar vinsamlegast hafi samband í síma lögreglunnar á Vestfjörðum 450 3730 eða símsvara lögreglunnar og tollgæslunnar á landsvísu 800 5005.