13 September 2002 12:00

Um kl.14:00 í gær stöðvaði lögreglan á Ísafirði bifreið sem var á leið til Ísafjarðar, frá Reykjavík. Stöðvunarstaðurinn var í Hestfirði og var ökumaður einn í bifreiðinni. Grunur hafði vaknað um að maðurinn, sem hefur sögu tengda fíkniefnamisferli, hefði fíkniefni í fórum sínum og hafi stundað dreifingu á slíkum efnum á norðanverðum Vestfjörðum.

Við leit í bifreiðinni fannst lítilræði af amfetamíni, eða innan við eitt gramm, og um 200 sveppir.

Maðurinn, sem er rúmlega 30 ára gamall og búsettur á Ísafirði, var yfirheyrður í gær. Honum var sleppt að leit og yfirheyrslu lokinni í gærkveldi. Málið telst upplýst.

Þess ber að geta að maðurinn heimilaði lögreglunni leit á sér við handtökuna en neitaði að heimila leit í bifreiðinni. Lögreglustjórinn á Ísafirði lagði þá fram kröfu um leitarheimild fyrir Hérðasdómi Vestfjarða, sem varð við kröfunni samdægurs. Við leitina í bifreiðinni fundust sveppirnir og amfetamínið.

Lögreglan vill hvetja alla þá sem hafa minnsta grun um fíkniefnameðhöndlun að gera lögreglunni viðvart. Fyllsta trúnaðar og nafnleyndar er gætt.