11 Desember 2009 12:00

Nú þegar svartasta skammdegið er skollið á vill lögreglan á höfuðborgarsvæðinu enn og aftur minna á mikilvægi endurskinsmerkja fyrir gangandi vegfarendur í umferðinni og hvetja til notkunar þeirra. Endurskinsmerki eiga að vera til á flestum ef ekki öllum heimilum en þess má geta að Umferðarstofa hefur dreift 70 þúsund endurskinsmerkjum á þessu ári. Fleiri aðilar hafa dreift endurskinsmerkjum en svo virðist sem þau fari beint ofan í skúffu hjá mörgum og er það mjög miður.

Foreldrar eru því eindregið hvattir til að setja endurskinsmerki á fatnað barna sinna sem oftar en ekki eru dökkklædd á ferð. Þá er ekki síður mikilvægt að fullorðnir noti þennan sjálfsagða og einfalda öryggisbúnað sér einnig til verndar. Lögreglumenn við eftirlitsstörf hafa tekið eftir því að mjög mörg börn og ekki síður fullorðnir eru á ferðinni án endurskinsmerkja, með tilheyrandi aukinni hættu á umferðarslysum í skammdeginu. Endurskinsmerki eru eins og kunnugt er afar einfalt en um leið mikilvægt öryggistæki í umferðinni, ekki síst núna þegar dimmt er mestanpart dagsins.