23 Ágúst 2012 12:00

Lögregla leitar 70 tjakka

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú þjófnað á níu steypumótum og 70 byggingartjökkum sem stolið var í Grindavík fyrr í sumar. Mótunum og tjökkunum hafði verið komið fyrir til geymslu á lóð. Þegar til átti að taka fannst hvorki tangur né tetur af þeim. Þeir sem kunna að hafa upplýsingar um málið eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 420-1800.

Mældist á 150 kílómetra hraða

Lögreglan á Suðurnesjum klippti í vikunni númer af sex bifreiðum sem voru ýmist óskoðaðar eða ótryggðar. Þá óku fjórir ökumenn yfir löglegum hámarkshraða á Reykjanesbraut. Sá sem hraðast ók mældist á 150 kílómetra hraða. Loks voru höfð afskipti af ökumanni sem hafði ekki spennt bílbelti og talaði í síma meðan á akstrinum stóð.