15 Febrúar 2012 12:00

Þrettán ára piltur varð fyrir líkamsárás á bílastæði við Laugardalsvöllinn í gær en hann var sleginn nokkrum sinnum með einhverskonar priki. Árásarmaðurinn er talinn vera fáeinum árum eldri og líklegast á menntaskólaaldri. Ekki er vitað hvað honum gekk til en annar piltur var með árásarmanninum í för og er sá á svipuðum aldri. Sá sem fyrir árásinni varð leitaði á slysadeild en hann fann fyrir eymslum í bæði höndum og fótum. Lögreglu var tilkynnt um atvikið eftir klukkan 14 í gær en það mun trúlega hafa átt sér stað rúmlega klukkutíma fyrr. Leitað var árangurslaust að árásarmanninum og félaga hans í gær en þeir eru báðir grannvaxnir og voru klæddir í svartar hettupeysur. Árásarmaðurinn er talinn vera um 180 sm á hæð.

Þeir sem geta varpað ljósi á málið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000 en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is