18 Mars 2009 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar nú að fólksbifreið sem stolið var af bifreiðastæði vestan við Kolaportið í byrjun mánaðarins. Um er að ræða ljósgræna Toyotu Yaris, árgerð 2005, skráningarnúmer LN-613, en samskonar bíl má sjá á meðfylgjandi mynd hér að neðan. Bílnum var stolið þegar ökumaðurinn skrapp á veitingahús í miðborginni en þar innandyra var bíllyklinum stolið úr veski viðkomandi. Bíllinn var svo hvergi sjáanlegur þegar ökumaðurinn hugðist halda heimleiðis. Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.