29 Ágúst 2018 12:09

Lögreglan á Austurlandi hafði í nógu að snúast um liðna helgi. Maður var fluttur á sjúkrahús eftir alvarlega líkamsárás í umdæminu en hann hafði orðið yfir þungu höfuðhöggi.

Bílvelta varð á Seyðisfjarðarvegi skammt neðan við Neðri-Staf á Fjarðarheiði. Ökumaður bifreiðarinnar var á bak og burt þegar lögregla kom á vettvang. Aðili sem lögregla telur að hafi ekið bifreiðinni var svo handtekinn, ölvaður, talsvert frá vettvangi þar sem hann fannst á göngu langt úti í móa. Lögregla notaði dróna við að hafa uppi á og nálgast aðilann.

Íbúar í Neskaupstað vöknuðu upp við vondan draum aðfaranótt sunnudags þegar sírenuhljómur ómaði um bæinn. Ástæðan var ölvaður ökumaður sem hafði tekið bifreið ófrjálsri hendi í öðrum þéttbýliskjarna á svæðinu og lagt leið sína til Neskaupstaðar. Hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og ók á ofsahraða í gegnum bæinn þar sem fólk var á ferli við skemmtistaði og skapaðist við þetta mikil hætta. Eftirförin endaði svo þegar ástand bifreiðarinnar var orðið þannig að hún var orðin óökuhæf og ökumaðurinn stökk út úr henni á ferð í miðbænum í Neskaupstað. Mannlaus bifreiðin var stöðvuð með því að aka lögreglubifreið í veg fyrir hana. Lögregla hafði svo hendur í hári ökumannsin unga stuttu síðar og reyndist hann ekki vera kominn með aldur til að fá ökuréttindi.

Í gær barst lögreglu tilkynning um grunsamlega aðila að banka á dyr í Neskaupstað. Allt atferli mannsins er mjög í samræmi við aðila sem hafa farið inn í hús víðsvegar á landinu og stolið þaðan verðmætum. Lögreglan vill biðla til íbúa á svæðinu að hafa augun hjá sér og láta lögreglu strax vita ef vart verður við grunsamlegar mannaferðir.

Lögreglan vill árétt við íbúa svæðisins að huga vel að því að skilja ekki við íbúðir eða ökutæki ólæst þegar engin er í þeim.