10 Mars 2012 12:00

Lögreglukór Reykjavíkur, ásamt Eyþóri Inga Gunnlaugssyni og hljómsveit,  halda tónleika í Hljómahöllinni, Reykjanesbæ,  miðvikudaginn 14. mars kl. 20.30. Gestir á tónleikunum verða Karlakór Keflavíkur. Aðgangseyrir er 2.500 kr.

Lögreglukórinn mun flytja tónlist af nýútkomnum geisladiski sínum (GAS) sem unninn var á síðasta ári og kom út í maí 2011.  Þar eru lög íslenskra trúbadora eins og KK, Megasar, Bubba Morthens, Harðar Torfa, Magnúsar Þórs og Bergþóru Árnadóttur.

Einnig verða á dagskránni gamlir slagarar af fyrri disk kórsins og ekki að efa að rokksöngvarinn snjalli, Eyþór Ingi, mun skila lögum eins og Knokcing on Heaven’s Door og  Born to be wild (Þoli’ ekkert væl)  af fullum krafti.

Geisladiskur kórsins heitir GAS (Góðir alþýðsöngvar), sem er tilvitnun í fræga atburði í tengslum við hrunið, en textarnir og lagavalið tengist þeim tímum sem við lifum. Það er nefnilega þannig að söngvaskáldin okkar hafa löngum ort um óréttlæti, siðgæði,  neyð og myrkur sálarinnar, en líka minnt okkur á að hlýjan, ástin og ljósið sé okkar helsta von.

Hljómsveitinni stýrir Gunnar Gunnarsson organisti og einn af okkar betri jazz píanistum ásamt úrvals hljóðfæraleikurum. Stjórnandi kórsins er Guðlaugur Viktorsson.  Þetta munu verða einir af síðustu tónleikum Guðlaugs með Lögreglukórnum en samstarf þeirra hefur verið langt og farsælt.