27 September 2011 12:00

Í framhaldi af fjölmennum félagsfundi Lögreglufélags Eyjafjarðar þann 26. september 2011, hafa níu lögreglumenn í Eyjafirði, sem skipa óeirðaflokk lögreglunnar á svæðinu, allir sem einn, sagt sig frá störfum í óeirðaflokknum. Með þessu vilja þeir undirstrika óánægju sína með framkomu ríkisvaldsins gagnvart stétt lögreglumanna í kjaraviðræðum og fullkomlega óásættanlega niðurstöðu gerðardóms í framhaldinu. Lögreglumennirnir benda jafnframt á að þeir hafi reiknað með að meðlimir í óeirðaflokkum lögreglunnar fengju veru sína þar metna til launa enda um sérhæft og verulega erfitt hlutverk að ræða, sem krefjist sérstakrar þjálfunar og atgerfis.  Lögreglumönnum til furðu sé hins vegar enn gert ráð fyrir að þeim störfum sé sinnt á venjulegum launatöxtum. Það sé enn eitt dæmið um þá láglaunastefnu sem ríkið hafi rekið gagnvart lögreglumönnum, sem ekki hafi verkfallsvopnið til að beita í kjarabaráttu sinni. Lögreglumennirnir munu því að óbreyttu ekki sinna þjálfun og óeirðalöggæslu sjálfviljugir.