7 September 2010 12:00

„Ég er afskaplega þakklátur fyrir þennan stuðning en það er ómetanlegt að eiga góða að,” segir lögreglumaðurinn Hermann Páll Traustason en samstarfsfélagar hans hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu færðu honum að gjöf 600 þúsund krónur á dögunum. Styrkurinn er tilkomin vegna veikinda dóttur Hermanns Páls og Hildar Arnars Ólafsdóttur en hún heitir Stella Líf og er 10 mánaða. Fljótlega eftir fæðingu hennar kom í ljós að ekki var allt með felldu. Sú litla hefur þegar orðið að gangast undir eina aðgerð í Boston í Bandaríkjunum og fleiri slíkar eru fyrirsjáanlegar þar vestanhafs. „Þetta tekur auðvitað á en við erum full bjartsýni um að allt muni fara vel,” segir lögreglumaðurinn.

Að vera með veikt barn tekur á og því er mikilvægt að foreldrarnir þurfi ekki líka að vera með fjárhagsáhyggjur á sama tíma. Styrkurinn frá vinnufélögunum léttir þeim verulega róðurinn og Hermann Páll ítrekar þakklæti sitt og bætir við að Líknar- og hjálparsjóður Landssambands lögreglumanna hafi líka rétt þeim hjálparhönd.  Til viðbótar má nefna að slökkviliðsmaðurinn Kristján Henrysson tók þátt Þrekmeistaranum og lét heita á sig til styrkar Stellu Líf. Fyrir það er lögreglumaðurinn sömuleiðis mjög þakklátur.

Búist er við að Stella Líf fari næst til Boston innan þriggja mánaða en hér heima er hún undir stöðugu eftirliti. Það eru þrengsli í slagæðum hennar sem orsaka vandann en búið er víkka sex æðar hjá Stellu Líf til að ná niður þrýstingi í hjartahólfunum.

Myndin hér að ofan var tekin þegar Bylgja Hrönn Baldursdóttir og Guðmundur Ingi Rúnarsson afhentu Hermanni Páli og Stellu Líf styrkinn.