15 Október 2012 12:00
Þuríður Arna heitir 10 ára stúlka sem hefur glímt við erfið veikindi, en hún greindist með heilaæxli fyrir nokkrum árum. Baráttan hefur verið erfið og mikið hefur verið lagt á þessa litlu hetju og fjölskyldu hennar. Því miður varð fjölskyldan líka fyrir þeirri skelfilegu lífsreynslu að brotist var inn á heimili hennar fyrr á árinu. Sem betur fer tókst lögreglunni að upplýsa málið, en þeir sem unnu að rannsókninni vildu jafnframt rétta fjölskyldunni hjálparhönd. Úr varð, fyrir milligöngu þeirra, að Líknar- og hjálparsjóður Landssambands lögreglumanna úthlutaði fjölskyldunni styrk sem mun vonandi létta henni örlítið lífið.
Óhætt er að segja að hafi verið glatt á hjalla þegar lögreglumennirnir komu og afhentu Þuríði Örnu og fjölskyldu hennar styrkinn. Með þeim í för var hann Lúlli löggubangsi en kappinn sá vakti vitaskuld mikla lukku. Lúlli fékk auðvitað að vera á mynd með fjölskyldunni, en hana má sjá hér að ofan. Á myndinni eru, talið frá vinstri, Oddný Erla, 8 ára, Óskar, Þuríður Arna, Hinrik Örn, 3 ára, Theodór Ingi, 6 ára, Áslaug og svo Lúlli þar fyrir framan.
Þess má geta að á tuttugu árum hefur um 18 milljónum króna verið úthlutað úr Líknar- og hjálparsjóði Landssambands lögreglumanna, en sjóðurinn var stofnaður árið 1992. Samtals hafa á annað hundrað aðilar, bæði einstaklingar og ýmiss samtök, notið góðs af og sannarlega hefur styrkur úr sjóðnum komið þeim öllum vel enda aðstæður hjá fólki oft mjög erfiðar. Lögreglumenn greiða í sjóðinn mánaðarlega en þeir selja líka merki og ýmis kort í fjáröflunarskyni.
Systurnar Þuríður Arna og Oddný Erla.
Bræðurnir Hinrik Örn og Theodór Ingi.