16 Október 2002 12:00

Mánudaginn 14. október sl. stóð rannsóknardeild lögreglunnar á Ísafirði fyrir árlegum samráðsfundi lögregluyfirvalda á Vestfjörðum. Samráðsfundurinn er liður í eflingu fíkniefnarannsókna og forvarna tengdum þessum málaflokki. Síðar sama dag funduðu sömu aðilar með sýslumönnum á Vestfjörðum þar sem ræddar voru ýmsar rannsóknaraðferðir hvað varðar fíkniefnamál og forvarnir. Fundina sátu lögreglufulltrúi frá fíkniefnastofu Ríkislögreglustjóra og aðstoðaryfirlögregluþjónn og rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og miðluðu þeir af þekkingu sinni og reynslu.

Fundir þessir voru mjög gagnlegir, en þar voru ræddar ýmsar nýjungar og áherslubreytingar í rannsóknum fíkniefnamála. Þá ræddu menn þróun mála í þessum málaflokki, bæði í nágrannalöndunum, á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þá flutti Jón Bjarni Geirsson, varðstjóri í Bolungarvík, erindi um þriggja mánaða starfsþjálfun er hann hlaut nýverið hjá norsku lögreglunni. Þjálfunin laut aðallega að notkun lögregluhunda og kom m.a. fram í erindi hans, að hundar væru meira notaðir við dagleg störf lögreglunnar í Noregi en tíðkast hefur hérlendis. Fundarmenn voru sammála um að efla enn frekar alla samvinnu innan Vestfjarða meðal lögreglunnar, ekki síst hvað þennan málaflokk varðar. Þá hvar hvatt til þess að lögreglan taki í ríkari mæli þátt í forvörnum á ýmsum sviðum með það í huga að minnka eftirspurn eftir fíkniefnum.

 Meðfylgjandi mynd var tekin af fundarmönnumá Hólmavík. Á myndinni eru eftirtaldir, talið frá vinstri: Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði, Theodór Kristjánsson lögreglufulltri fíkniefnastofu, Guðbrandur Hansson rannsóknarlögrelgumaður í fíkniefnad. lögr. í Rvík., Sigríður Björk Guðjónsdóttir sýslumaður á Ísafirði, Ásgeir Karlsson aðstoðaryfirlögregluþjónn fíkniefnad. lögr. í Rvík., Áslaug Þórarinsdóttir sýslumaður á Hólmavík, Önundur Jónsson yfirlögregluþjónn á Ísafirði, Guðmundur Ingþór Guðjónsson lögreglumaður á Patreksfirði, Sturla Páll Sturluson deildarstjóri tollgæslunnar á Ísafirði, Hlynur Snorrason lögreglufulltrúi á Ísafirði, Jónas Sigurðsson aðalvarðstjóri á Patreksfirði, Jón Bjarni Geirsson varðstjóri í Bolungarvík, Hannes Leifsson varðstjóri á Hólmavík, Jónas Guðmundsson sýslumaður í Bolungarvík og Skúli Berg rannsóknarlögreglumaður á Ísafirði.