23 Júní 2017 14:38

Þvingunaraðgerðir, blekkingar, hótanir og kúganir gagnvart börnum og ungmennum á netinu hafa aukist mjög á síðustu árum. Europol hefur gefið út viðvörun og hafið herferð vegna þessa og birt leiðbeiningar um hvernig beri að bregðast við, en mál af þessu tagi eru sjaldan tilkynnt til lögreglu.

Í flestum tilfellum er um að ræða þvinganir sem fela í sér að börn og ungmenni eru hvött til að senda af sér kynferðislegar myndir en svo krafin um greiðslu gegn loforði um að þær verði ekki birtar opinberlega.

#SayNO

Sem andsvar við þessari alvarlegu þróun hefur herferðinni #Say NO! eða #Segðu Nei! verið hrint af stað. Europol styður herferðina sem réttindasamtök og einkaaðilar í Evrópu standa á bakvið. Herferðin miðar að því að gefa þeim ráð sem hafa lent í slíkum glæpum, eða eru líklegir til að verða fórnarlömb kúgunar með nauðung á netinu, sem og að hvetja til að málin séu tilkynnt.

„Börn nota internetið í meira og meira mæli til að eiga samskipti og tengjast félagslega. Það ætti að geta talist eðlilegur hluti af þroska þeirra, en við verðum að fræða þau um þær hættur sem þau kunna að mæta þar svo netumhverfið verði þeim eins öruggt og mögulegt er,“ segir Stefen Wilson, yfirmaður netglæpa í Evrópu hjá Europol.

Ert þú fórnarlamb? Fáðu hjálp. Tilkynntu. Við erum hér.

Skilaboð Europol til þeirra sem lenda í þessum netglæpum eru: Ekki borga og ekki láta skömmina stöðva þig í að tilkynna til lögreglu eða ábendingalínu. Ef einhver hótar þér að deila kynferðislegum myndum eða myndböndum af þér nema þú sendir þeim meira eða borgir þeim fyrir, taktu þessi skref:

  1. Ekki deila meiru, ekki borga neitt.
  2. Leitaðu hjálpar. Þú ert ekki ein/einn.
  3. Geymdu sönnunargögn, ekki eyða neinu.
  4. Hættu samskiptunum. Blokkeraðu manneskjuna.
  5. Tilkynntu til lögreglu eða ábendingalínu.

Fyrir frekari upplýsingar um hvernig ber að bregðast við ef þú, barnið þitt, eða ef einhver sem treystir þér er mögulegt fórnarlamb kynferðiskúgunar hafðu samband í gegnum ábendingalínu Barnaheilla eða beint við lögreglu.

Vefsíðu Europol fyrir herferðina #SayNO má finna hér
Sjá meira á vefsíðu Barnaheilla