19 Apríl 2011 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar að loftpressu sem stolið var í Ánanaustum í Reykjavík laugardaginn 16. apríl. Loftpressan, sem er í kerru á hjólum, er skærgul að lit. Á sama stað var einnig stolið 400 lítra plasteldsneytistanki merktum N1, grænum að lit. Vísbending er um að sendibifreið hafi verið notuð við flytja hina stolnu muni af vettvangi. Þeir sem kunna að búa yfir vitneskju um málið eru vinsamlegast beðnir um að senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is eða hringja í síma 444-1000. Á meðfylgjandi mynd er samskonar loftpressa og um ræðir.